Monday, April 12, 2010

Fur: An Imaginary Portrait of Diane Arbus [2006]

Fur er eins og titillinn segir byggð á ævi Diane Arbus en myndin gerist á tímabili í ævi Arbus sem við vitum í rauninni ekkert um. Handritshöfundurinn og leikstjórinn ímynda sér svo afganginn. Þeir eru þó ekki að reyna að útskýra hvað gerðist raunverulega í lífi hennar heldur er öll myndin táknræn og þeir reyna eingöngu að útskýra hvernig hugsanir hennar breyttust. Til þess að skilja myndin þarf að vita hver Diane Arbus er. Arbus er líklega einn þekktasti ljósmyndari Bandaríkjanna. Hún ólst upp í New York og þó hún hafi alltaf verið öðruvísi varð það ekki augljóst fyrr en 1958 þegar hún fór að taka sínar eigin ljósmyndir. Helstu viðfangsefni hennar voru fólk sem var öðruvísi: tvíburar, þríburar, klæðskiptingar, dvergar, albinóar og geðsjúklingar. Viðfangsefni hennar virðast ekki jafn skrítin 2010 og þú voru 1958 en Diane nær þeim yfirleitt á stundum sem gerir þau ógeðfelldari eða undarlegri en þau í raun voru.


Það sem vitað er um líf Diane Arbus á þeim tíma sem hún byrjar að taka þessar myndir er ekki mikið. Hún var 35 ára og gift Allan Arbus (smá side note: Allan Arbus varð leikari eftir að hann og Diane skildu. Fyrsta myndin sem hann lék í var leikstýrð af Robert Downey Sr. en Robert Downey Jr. leikur í Fur.) Diane og Allan unnu saman í ljósmyndastúdíoi Allans en aðalverkefni þeirra var að taka auglýsingar fyrir feldasölu pabba Diane. Diane var frá sjónarhorni þeirra utanaðkomandi hin típíska 50´s eiginkona sem sá um börnin, eldamennskuna, þrifin og var aðstoðarmanneskja mannsins síns í stúdíóinu. Ekki er vitað hvað gerðist inná heimilinu eða í hausnum á Diane en 1958 fer hún að breytast, taka þessar “skrítnu” myndir og fór stuttu seinna frá eiginmanni sínum.

Þá erum við komin að söguþræði myndarinnar. Það flytur maður inn í íbúðarhúsið sem Arbus fjölskyldan býr í. Hann vekur strax áhuga Diane (Nicole Kidman) og hún kemst fljótt að því að hann þjáist af sjúkdómi sem nefnist hypertrichosis og hafði eytt stórum hluta af lífi sínu sem “circus freak”. Hann kynnir Diane fyrir heiminum sem hún hafði alltaf þráð að kynnast, aragrúa af fólki sem er öðruvísi en fjöldinn og sjá ekkert að því. Maðurinn heitir Lionel Sweeney (Robert Downey Jr.) hann er ekki byggður á neinu úr lífi Diane en táknar breytinguna sem hún gekk í gegnum á þessum tíma.

Þegar ég heyrði fyrst að það ætti að gera mynd um Diane Arbus varð ég ótrúlega spennt, næst heyrði ég að Robert Downey jr. ætti að leika í henni og þá gat ég ekki beðið. Næstu fréttir voru þær að Nicole Kidman ætti að leika Diane og þá komst ég að því að Stephen Shainberg myndi leikstýra henni. Það er einhver erfðagalli í fjölskyldunni minni en ekkert okkar getur horft á Nicole Kidman, bara einfaldlega enginn í fjölskyldunni þolir hana. Stephen Shainberg vakti líka smá áhyggjur hjá mér. Mér fannst Secretary ágæt en það var eitthvað við hana sem pirraði mig hef aldrei almennilega náð því hvað það var. Kidman og Shainberg voru hinsvegar ekki nóg til að stoppa mig í að horfa á myndina.


Ég keypti myndina fyrir rúmlega ári síðan og byrjaði að horfa á hana með vinkonu minni. Eftir of mörg ár í sundi og samkvæmisdansi er hún með alvarlega hár phobiu. Hún komst því ekki í gegnum meira en 15-20 mín af myndinni áður en hún gafst upp. Eftir þetta gleymdi ég myndinni, en núna þegar ég átti að vera að læra undir jarðfræðipróf varð mér litið í DVD hilluna mína og ákvað að ég yrði nú að horfa á þessa mynd. Söguþráðurinn snýst, eins og ég sagði fyrr, nær eingöngu um tákn. Hann er því örlítið þunnur. En það breytir engu máli þar sem tvær manneskjur gera myndina að svo miklum draumaheimi að maður getur alveg týnst i honum. Þetta eru Amy Danger sem hannaði allt settið sem er svo ótrúlega dulúðugt og flott að ég gat ekki slitið augun af myndinni og Carter Burwell sem sá um tónlistina. Tónlistin er stundum frekar öðruvísi en samt svo ótrúlega fullkomin fyrir myndin. Tónlistin er ekki áberandi eða dramtísk heldur fellur hún inn í umhverfi og hjálpar til við að búa til þenna ævintýraheim sem líf Lionel er. Þegar ég segi ævintýra heim þá meina ég ævintýraheim, myndin er full af vísunum í Alice in Wonderland. Þegar Arbus horfir á lykil á glerborði, labbar upp hringstiga í bláum kjól, fer inn í íbúð sem er ólík öllu sem hún hafði séð og sér þar hvíta kanínu og fær skilaboð um að drekka bolla af tei finnst áhorfanda hann vera farinn að horfa á enn eina útgáfu af Undralandi.

Lionel er vel skrifaður karakter. Hann er sjarmerandi og tælandi, hann heillar Diane með vinum sínum, frjálslegum lífstíl og hinum ótrúlega áhuga sem hann hefur á henni og að leyfa henni að kynnast öllu sem hún vill kynnast. Robert Downey jr. nær honum ótrúlega vel, hann ber sig eins og maður mundi búast við af manni sem hefur verið gert grín að alla hans ævi en vill að heimurinn sjái að hann skammast sín ekki. Þar sem hann er þakin hári nærri því alla myndina þarf hann að leika margt með eingöngu augunum og honum tekst það vel. Hann nær að beita röddinni á vegu sem passar ótrúlega vel fyrir Lionel og allar litlar hreyfingar gera karakterinn að persónu sem áhorfandi getur tengst.


Allan eiginmaður Diane er nákvæmlega það sem hann þarf að vera, honum þykir greinilega vænt um Diane og vill gera það sem hann getur fyrir hana en hann á erfitt með að horfa á konuna sína breytast svona mikið, svona hratt. Hann stendur fljótlega frammi fyrir þeim möguleika
að hann sé að fara að vera einstæður faðir í kringum 1960 sem var rosalega sjaldgæft. Ty Burrell leikur Allan og það verður að segjast að það er flókið verk. Áhorfanda langar ekki að líka við Allan því hann stendur fyrir allt það sem heldur aftur af Diane, það sem bindur hana við hið hefðbundna líf sem henni líður svo illa í. En Burrell nær Allan svo viðkunnanlegum og vorkunnarlegum að samúð áhorfanda verður mjög sterk með honum.

Diane er manneskja sem maður á erfitt með að skilja, hún er að reyna að brjótast undan því lífi sem foreldrar hennar, eiginmaður og samfélagið ætlast til að hún lifi. Hún hefur greinilega aldrei passað vel inn. Ef við tölum um hina raunverulegu Diane þá hafði hún á barnsaldri alltaf áhuga á skrítnu krökkunum, hún var aldrei hrædd og fékk snemma löngun til að fara í líkhús, geðspítala og nektarnýlendur. Þetta er ekki endilega það sem áhorfandi skilur vel og áhorfandi getur einnig á erfitt með að skilja hvernig hún getur á þremur mánuðum fjarlægst eiginmann sinn og tvær dætur svona auðveldlega. Kidman leikur hana ótrúlega vel má þá sérstaklega nefna atriði snemma í myndinni þegar foreldrar hennar halda loðfeldssýningu heima hjá Arbus hjónunum. Þá er klippt á milli frekar ógeðfelldra skota sem sýna áhorfendur sýningarinnar og græðgi þeirra í veraldlega hluti og skota af Diane að fylgjast með þeim. Þetta atriði er algerlega byggt á augum Diane og þetta atriði er að mínu mati ótrúlega vel leikið hjá Kidman. Það eina sem mér fannst að var það að hún er of falleg, ég er ekki að segja að leikkona eigi að lýta eins út og persónan sem hún leikur en Arbus stendur bara fyrir öðruvísi fegurð eða jafnvel lýti manneskjunnar og því er undarlegt að hún sé svona falleg.

Eftir að horfa á myndina komst ég að því hvað mér finnst að Secretary því ég sé sama gallann hér. Shainberg vill hafa persónur sínar of “nice”. Þegar ég hugsa um það þá fannst mér óþægilegt í Secretary hvað það var mikið verið að reyna að gera persónu Maggie Gyllenhal (hef ekki betra orð) nice. Í Fur er það sama gert með Diane og mér finnst það ónauðsynlegt og stundum bara ganga svolítið erfiðlega hjá þeim.

Ég sé ekki eftir því að hafa horft á myndina í stað þess að læra. Hún heillaði mig “upp úr skónum” og ég hafði ótrúlega gaman af því að detta inn í þenna heim sem þau bjuggu til. Mæli með því að allir sem vita eitthvað um Diane og heillast af myndum hennar sjái myndina. En mæli ekki með því að horfa á hana án þess að kynna sér Diane eitthvað á undan.


Trailerinn (Alveg hræðilega lélegur að mínu mati):

Friday, April 9, 2010

An Education [2009]


Mér tókst að horfa á alla myndina án þess að átta mig á því að þetta væri An Education, mynd sem var tilnefnd til 3 óskarsverðlauna og 8 BAFTA verðlauna. ég hef hyert um hana og lesið um hana en tengdi bara aldrei myndina sem ég var að horfa á við umfjöllunina. Ég ætla að kenna þreytu um þessa lélegu heilastarfsemi. Mér tókst allavega að horfa á hana án þess að vita að ég var að horfa á verðlaunamynd. Sem mér finnst samt mjög gott því væntingar eyðileggja mjög auðveldlega fyrir mér myndir.


Ég vissi ekkert þegar ég byrjaði að horfa á myndina ég þekkti andlitin á leikurunum og datt fljótt inn í söguþráðinn. Myndin fjallar um Jenny (Carey Mulligan) sem er 16 ára. Hún byrjar að hitta mann á fertugsaldri, David (Peter Sarsgaard) og fellur fyrir lífinu sem hann getur boðið henni. Myndin er byggð á ævisögu Lynn Barber. Jenny er tilgerðarleg skólastelpa sem þráir að vera fáguð og David er eldri maður sem getur boðið henni ferðir til París, tekið hana á fína veitingastaði og stóra tónleika. Hann býður henni glamúr lífið sem hún hefur alltaf þráð svo maður skilur afhverju hún er tilbúin að fara í þetta samband. Hins vegar er hann barnalegur og skrítinn þegar það kemur að kynlífi, dularfullur varðandi starf sitt og í raun jafn tilgerðarlegur og Jenny. Mér finnst Saarsgard mjög góður í þessu hlutverki hann gefur frá sér frekar ógeðfelldan “vibe” en á sama tíma er hann sjarmerandi. En eftir að sambandið er hafið líður ekki langt þar ég missti allan áhuga. Mig vantaði að vita að þau hefðu áhuga á hvoru öðru ekki bara að nota hvort annað. Það vantar meiri spennu í þetta samband svo áhorfandi tengist því betur. Hafa David áhugaverðari eða sambandið ástríðumeira. Því í seinni hluta myndarinnar þegar áhorfandi kemst að því að David er ekki búinn að segja Jenny allan sannleikann þarf það að hafa áhrif, það skipti mig allavega engu máli að hann hafi logið að henni.

Leikstjórnin á myndinni er ekkert sérstaklega eftirtektarverð, nema í Parísarsenunni. Þau fara saman til París og öll skot eru varlega tekin þar sem myndin gerist í kringum 1960 og því mega ekki sjást nútímabyggingar, bílar eða neitt slíkt. Og þetta er ótrúlega vel gert, París á að vera heitasti draumur Jenny og þessar senur í París eru ótrúlega fallegar og rómantískar.

Leikararnir eru ótrúlega góðir. Hreimurinn hans Sarsgaard er örlítið vafasamur en eftir að ég las brot úr ævisögu Lynn Barber ( http://www.guardian.co.uk/culture/2009/jun/07/lynn-barber-virginity-relationships ) skilur maður Sarsgaard betur. Simon raunverulegi maðurinn sem Lynn Barber kynntist var ljótur, þybbin og með tilgerðarlegan hreim. Eftir þá lýsingu kemur Sarsgaard miklu betur út. Mulligan er líka mjög góð. Hún lýtur stundum út fyrir að vera full gömul til að leika Jenny en maður er svo vanur Hollywood að ráða þrítuga leikara til að leika 16 ára krakka að það að Mulligan hafi verið fullorðinsleg fór aldrei í taugarnar á mér. Einnig má nefna Emmu Thompson, hún er í örfáum senum en hún er jafn frábær og hún er alltaf. Thompson og Mulligan tengjast ótrúlega vel og samtölin á milli þeirra eru ótrúlega vel leikin. Tónlistin í myndinni fór oft í taugarnar á mér, hún á svo til hryllilega yfirdrifin.

Ég átti erfitt með endann, mér finnst þeir flýta sér of mikið í gegnum hann. Jenny er vansæl, hún finnur lausn og lifir hamingjusöm til æviloka. Þetta gerist á 5 mínútum. Veit ekki hvort þetta hafi verið handritið eða klippiferlið en mér finnst allavega eitthvað hafa farið úrskeiðis með endann. Á örlítið erfitt með að gefa ástæður fyrir því hvað mér finnst að endanum án þessa að spoila myndinni alveg svo ég ætla bara að segja að Jenny hefur rökstutt ákvarðanir sínar vel í gegnum myndina en allt í einu svíkur hún allar sínar skoðanir og fer aftur á brautina sem pabbi hennar hafði sagt henni að fylgja.

Mér fannst myndin alls ekki léleg en fannst hún ekkert frábær heldur. Hafði gaman að leikurunum og finnst parísarsenan svo flott að hún nægði mér alveg til að líka við alla myndina. Skil það að Carey Mulligan hafi fengið svona mikið af tilnefningum en veit ekki alveg með handritið og myndina sjálfa.

Trailer:

Wednesday, April 7, 2010

My Blueberry Nights [2007]

Eyddum miklum tíma á vídjóleigunni að reyna að finna einhverja mynd og enduðum á mynd sem hvorug okkar hafði heyrt um og höfðum í raun enga ástæðu til að velja. Myndin heitir My Blueberry Nights og aðalleikarar hennar eru Jude Law, Norah Jones, Rachel Weisz og Natalie Portman. Hún fjallar um stelpu sem flýr líf sitt í New York og ferðast í gegnum Bandaríkin í leit að einhverju betra.

Miðað við það að Lizzie (Norah Jones) ferðast frá New York til Las Vegas og aftur til baka þá gerist hræðilega lítið í þessari mynd. Það er alveg margt til að líka við. Aðalpersónurnar eru einfaldar, saklausar og viðkunnanlegar. Þægileg ástarsaga og fín tónlist. En þegar kreditlistinn byrjaði að renna áttaði ég mig á því að mér fannst myndin í raun aldrei hafa byrjað en samt fannst mér ég hafa horft í 3 tíma. Myndin er alveg óhugnanlega hæg. Samtölin eru löng, þögnin er löng og oft hreyfist myndavélin löturhægt sem orsakar það að áhorfandanum finnst myndin vera í slowmo.

Ég hef bara séð eina mynd áður eftir Kar Wai Wong og þá leikstýrði hann bara einum hluta af myndinni og er hann mér ekki eftirminnilegur. Þetta er fyrsta myndin sem hann leikstýrir sem er á ensku. Ég fílaði ekki stílinn hans, það var alltaf e-ð fyrir myndavélinni, hæg skot sem hikstuðu og of langar senur.

Jude Law leikur týpuna sem maður hefur séð hann leika svo oft áður. Hann er fyrirsjáanlegur en nokkuð fínn. Ég var frekar kvíðin að sjá Noruh Jones leika en hún var bara ágæt, ekkert meira ekkert minna. Natalie Portman og Rachel Weisz voru virkilega góðar í sínum hlutverkum. Persónur Law og Jones eru eins og ég sagði áður saklausar, ljúfar og einfaldar. Portman og Weisz eru hinsvegar vondu persónurnar ef svo má segja. Þær kenna Lizzie um fíkn og það að engum sé treystandi. Þær eru báðar sannfærandi í hlutverkum sínum sem hafa mun meiri dýpt en persónur Law og Jones.

Það er fín tónlist í myndinni en hún gerir ekkert til að lífga upp á hana. Löturhæga tónlistin, sem maður býst við að heyra á subbulegum bar stuttu fyrir lokun þegar bara rónarnir sitja eftir í þungum þönkum, passar þó fullkomlega við hæga atburðarrás myndarinnar.

Í byrjun myndarinnar og alltaf af og til í gegnum myndin fyllist skjárinn af close-up skotum af kökum, rjóma og ís. Ég skil ekki þessi skot, þau eru virkilega ógeðfelld og ég næ ekki hvað þau eiga að tákna. Kannski er ég bara einföld.

Lýsingin í myndinni er fín, persónurnar ágætar, Weisz og Portman eru frábærar en mér fannst myndin hræðilega löng miðað við að hún er bara 95 mín. Sé ekkert eftir því að hafa séð hana en myndi ekki mæla með henni. Fékk allavega ekki neitt út úr því að sjá hana.

Breski trailerinn:

Bandaríski (finnst hann betri en það er líklega bara af því að hann nýtir soundtrackið úr myndinni):

Alice in Wonderland [2010]


You've got a very important date.

Ég fór á Alice in Wonderland um daginn og þrátt fyrir það að ég elski Tim Burton, hafi mjög gaman af tríóinu (Burton, Depp og Bonham-Carter) og ég vissi að Stephen Fry væri e-ð í myndinni fór ég í bíó án allra væntinga. Ég hef lesið hluta af fyrri bókinni og hafi mjög gaman af henni en hef aldrei haft gaman af Alice in Wonderland myndunum. Ég held að þetta væntingarleysi hafi verið ástæðan fyrir því að ég hafði gaman að myndinni. Fór á netið að lesa aðeins um hana og IMDB er yfirfullt af fólki sem virðist virkilega hata þessa mynd.

Get alveg verið sammála þeim að vissu leiti myndin er ekki fullkomin. Ætla bara að renna hratt yfir það sem mér fannst að og reyna svo að hafa þetta aðeins jákvæðara. Mér fannst vanta hina dimmu veröld Burton´s, það vantaði meiri dýpt í persónurnar og meiri Burton tilfinningu, illkvitni og frumleika í persónum og samtölum. Söguþráðurinn fyrir mér er líklega stærsti gallinn en líka sá sem ég á auðveldast með að fyrirgefa. Bækurnar eru ferðalag um óraunverulegan heim, trip frá einum atburði til þess næsta án tilgangs eða tengingu við veruleikann. Það sem Tim Burton og handritshöfundurinn Linda Woolverton hafa ákveðið að gera er að reyna að setja saman söguþráð úr bókunum tveimur og það tekst einfaldlega ekki nógu vel. Söguþráðurinn er fyrirsjáanlegur og frekar þurr. En eins og ég sagði finnst mér þetta fyrirgefanlegt, það gengur ekki jafn vel upp að sleppa söguþræði í myndum og bókum. Það að skrifa söguþráð í þessar myndir er hægara sagt en gert, það verður að svíkja bækurnar aðeins og þá færðu strax stóran aðdáendahóp á móti þér. Ekki að þeir þurfi að hafa áhyggjur af því þar sem það hefur sannast að mynd sem Burton leikstýrir og Depp og Bonham-Carter leika í mun draga að sér stóran áhorfendahóp sama hvað. Held að myndin hefði farið betur ef Burton hefði gert meira í handritinu og Woolverton minna. Ég vil allavega trúa því að hann hefði getað nýtt svarta húmor bókanna betur en handrit myndarinnar gerir.
Það sem mun þó að eilífu pirra mig við myndina eru dansatriðin. Dansatriði Johnny Depp en ansi lélegt, skrítið og misheppnað en þegar Wasikowski endurtekur það er það hreint og beint óafsakanlega kjánalegt. Þau eru líka það seint í myndinni að þau sitja eftir í manni þegar maður labbar út. Það hefði gert mikið fyrir myndina að sleppa þessum tveimur atriðum.

Við fengu okkur frí frá íslensku lærdómi til að sjá myndina og eftir margra daga lærdóm vorum við komnar í fullkomlega súrt hugarástand til að horfa á Burton mynd. Alice in Wonderland gaf mér akkurat það sem ég vildi: um það bil tveggja tíma frí frá raunveruleikanum. Myndin er ekki að fara að vinna nein óskarsverðlaun en ég var heldur ekki að búast við þannig mynd. Ég hafði ótrúlega gaman af þessum típíska breska leikarahóp. Christopher Lee, Stephen Fry, Alan Rickman og Imelda Staunton leikarar sem virðast oft vera saman í myndum og standa alltaf fyrir sínu. Ekkert þeirra leikur stórt hlutverk en þau gera sitt svo ótrúlega vel að það eru þau sem maður man eftir þegar maður labbar út úr bíóinu. Depp sem klikkaði hattarinn í skrautlegum búning með, brjáluð augu og klofin persónuleika stendur alveg fyrir sínu. Þarf samt að sjá Depp í nýrri mynd þar sem hann leikur einhvern alveg venjulegan farin að sjá of mikinn Jack Sparrow og Willy Wonka í persónum hans. Helen Bonham Carter sem samblanda af rauðu drottningunni og hjartadrottningunni er frábær. Anne Hathaway nær furðulegu hvítu drottningunni vel og Matt Lucas er frábær sem tvíburarnir. Mia Wasikowska er ótrúlega falleg og get ekki sett út á leikinn hennar, fannst hins vegar Alice ansi leiðinleg. Veit ekki hvort það sé hún, leikstjórnin eða handritið en mér fannst hún alveg heiftarlega leiðinleg. Mér fannst leikararnir sem voru eingöngu að tala inn á myndina stela senunni. Stephen Fry (ok ég er ekki hlutlaus, hef séð allt sem maðurinn hefur gert og ekki mislíkað neitt af því) er frábær sem Chesire Cat og Alan Rickman er snilld í sínum 5 setningum sem Absolem og Christopher Lee er fullkomin sem Jabberwocky.

Ég ætla að sleppa umfjöllun um 3D þar sem ég bara get ekki myndað mér heilsteypta skoðun um þessa ákveðnu tækni.
Tónlistin er eftir Danny Elfman eins og svo oft áður í Burton myndum og passar að mínu mati ótrúlega vel við Undraland.

Myndin mjög flott, mikið af leikurum og skemmtilegum persónum. Ég hefði samt helst viljað sjá minni söguþráð og meira af klikkuðum, ótrúlegum og óraunverulegum persónum. Ég naut myndarinnar en hún skilur ekki mikið eftir sig.

Wednesday, March 24, 2010

The Strangers [2008]

(Jæja taka 2)

Kirsten:Why are you doing this to us?
Dollface:Because you were home.

Vil byrja á því að segja að sá sem hefur áhuga á að sjá þessa mynd ætti líklega ekki að þesa þetta blogg. Spoilers.

The Strangers er horror/thriller mynd sem kom út árið 2008. Í byrjun myndarinnar koma Kirsten (Liv Tyler) og James upp í einhvers konar sumarhús sem stendur algerlega eitt. Engin hús og ekkert fólk í kring. James hafði fengið þetta hús til að fagna trúlofun þeirra en hann bað Kirsten fyrr um kvöldið. Hún neitaði honum hinsvegar og þegar þau koma í húsið er samband þeirra frekar vandræðalegt. James skilur Kirsten eftir og fer út í búð. Þegar hún er ein í húsinu fara undarlegir hlutir að gerast. Stelpa bankar að leita að einhverjum sem Kirsten veit ekki hver er og hlutir í húsinu eru ekki þar sem þeir voru settir. Kirsten verður það nokkuð ljóst að einhver hefur komist inn í húsið. Þegar James kemur til baka hefst gamanið. Í ljós kemur að þrjár grímuklæddar manneskjur eru að reyna að hræða úr þeim líftóruna. Þau berja á glugga, hurðir og veggi, ráfa inn og út úr húsinu og gera einfaldlega allt til að hræða Kirsten og James án neinnar augljósrar ástæðu. Þegar myndin er u.þ.b hálfnuð er einn gestur dauður, Kirsten stórslösuð og parið að farast úr hræðslu án þess að grímuklæddu manneskjurnar hafi komið við einn né neinn. Í lokin binda þau Kirsten og James við stóla og drepa þau. Í ljós kemur að morðingjarnir hafa akkurat enga ástæðu fyrir því að gera þetta. Eina svarið sem þau veita er: Because you were home. Svo keyra þau í burtu í leit að næsta húsi til að hrella fólk í.

We tell ourselves there's nothing to fear - but sometimes, we're wrong.

Bryan Bertino skrifar bæði handritið og leikstýrir myndinni. Þetta er fyrsta myndin sem hann leikstýrir. Hef ekki margt að segja um leikstjórn myndarinnar nema bara það að honum tekst vel að búa til rétt andrúmsloft með því að hafa alltaf smá hreyfingu á myndavélinni. Þá erum við ekki að tala um neinn indie hristing bara svona smá hreyfingu. Hafði líka gaman af hljóðunum og tónlistinni í myndinni, ískrið í rólunum og bara öll aukahljóðin er mjög creepy. (fyrir utan hnífshljóðið, sjá neðar)
Handritið er líka mjög vel heppnað, fyrri hlutinn allavega. Í fyrra hluta myndinnar er spennan ótrúlega vel byggð upp fyrir hvert bregðu atriði. Myndin rennur vel og ég og þeir sem ég horfði á myndina með sátu allir á sófabrúninni að deyja úr spenningi. Það er líka mjög flott að leyfa áhorfanda aldrei að sjá andlitin á morðingjunum. Það gefur þeim ákveðna dulúð sem gerir þau miklu hræðilegri.

Svo komum við að seinna hluta myndarinnar. Ég ætla að setja skilin á milli góða hlutans og slæma hlutans við stærstu klisju hryllingsmyndanna: Lets split up. Kirsten og James eru komin inn í hornherbergi þau eru með byssu og kúlur og hætu auðveldlega setið þar inni og ef grímuklædda fólkið vildi ná þeim þyrftu þau að fara í hurðina og þar myndi James skjóta þau. En nei James skilur Kirsten eftir eina inn í húsinu og fer að leita að þeim. Eftir þetta hnignar myndin aðeins spennuatriðin verða örlítið langdregin og myndin tapar tempoi. Svo komum við að endinum sem er frekar mikið misheppnaður. Mér finnst að Bertino hefði átt að halda í alla dulúðina sem hann var búin að byggja upp og láta grímuklædda fólkið binda þau við stóla og labba svo bara í burtu. Það er miklu hræðilegra að vita að þau eru ennþá þarna úti og gætu jafnvel komið aftur. Þá væri einnig hægt að bæta við skoti 10 árum seinna þegar Kirsten og/eða James komast að því að þau eru snúin aftur, finna eina af grímunum eða e-ð. Hinsvegar hefði verið hægt að láta myndina enda eins en hafa morðin aðeins meira gruesome. Þetta er ekki slasher flick og ég skil það en ef þú ætlar að drepa þau þá verðuru að gera það betur en þetta.

Myndin er mjög góð fyrir svona cheap thrill, tókst allavega að bregða mér og vinum mínum nokkuð oft. En hún skilur ekkert eftir sig. Getur verið viss um að þú munir alveg sofna eftir að horfa á hana.

Trailer:


og ein sena sem ég get ekki embeddað en verð að benda á hana þar sem ég grét úr hlátri þegar Liv Tyler dró upp hnífinn. Afhverju hljómar þetta eins og hún hafi dregið upp sveðju??
http://www.youtube.com/watch?v=FKZ0jGgQCPs

Tuesday, March 23, 2010

The Air I Breath [2007]


I always wondered, when a butterfly leaves the safety of its cocoon, does it realize how beautiful it has become? Or does it still just see itself as a caterpillar?

The Air I Breath er skrifuð af Jieho Lee og Bob DeRosa. Lee leikstýrir myndinni einnig. Myndin er ein af þessum myndum sem eru að verða aðeins of típískar í hollywood indie myndum. Hún er yfirfull af kunnuglegum nöfnum, Forest Whitaker, Kevin Bacon, Andy Garcia, Brendan Frasier og Sara Michelle Gellar, og sýnir stutta þætti úr lífi nokkurra ólíkra manneskja sem tvinnast svo saman.


“No emotion, any more than a wave, can long retain it´s own individual form.”

Þessi setning er aðal þema myndarinnar. Hún snýst öll um tilfinningar. Aðalpersónurnar standa allar fyrir ákveðnar tilfinningar, Frasier er Pleasure, Whitaker er Happiness, Bacon er Love og persóna Sarah Michelle Gellar stendur svo sterklega fyrir sorgina að hún heitir Sorrow. Ég ætla alveg að sleppa umfjöllun um söguþráð þar sem stærsti hluti myndarinnar fyrir mér var að fylgjast með myndinni flæða og karakterunum að bætast hægt inn í söguþráðinn.

"Sometimes being totally fucked can be a liberating experience."

Handrit myndarinnar er nokkuð gott að mínu mati vegna þess að svona sögur eiga það oft til að tapa sér í því að fela hvernig persónurnar tengjast og verða fljótt allt og ruglingslegar. En The Air I Breath er vel skipulögð svo maður tapar aldrei söguþræðinum. Myndin er hinsvegar ansi hádramatísk og finnst mér það stundum orsaka að áhorfandi tapar tilfinningunni sem myndin á að framkalla einfaldlega vegna þess að hádramatíkin verður annað hvort fyndin eða pirrandi. Þar sem myndin snýst öll um tilfinningar þá er þetta svolítið stór galli. Verð einnig að bæta við að þar sem hugmyndin að myndinni kemur frá kínverskum málshætti birtast margar ansi skrítnar setningar í gegnum myndin. Það má einfaldlega sjá þessar sem birtast hér í blogginu til að vita það. Handritið reynir að vera mjög djúpt og gáfulegt en einhvern veginn rennur það því úr greipum og setningarnar verða einfaldlega skondnar.

Myndir eins og þessi t.d. Pulp Fiction,Love Actually, Crash, Magnolia, 13 Conversations About One Thing og fleiri og fleiri annað hvort virka eða virka ekki. Annað hvort draga þær áhorfanda inn í líf allra persónanna eða tapa áhorfandanum algerlega í flækjum og yfirdrifnum tilfinningum. Ég hef til dæmis séð Pulp Fiction, Crash og Love Actually ansi oft en ég er nokkuð viss að ég muni aldrei horfa á The Air I Breath aftur. Ég sé ekki eftir að hafa horft á hana og ég hafði alveg gaman af því hversu vel úthugsað handritið var en það voru of margar skrítnar setningar of margar ýktar tilfinningar og of margar klisjur til að ég sé sátt við myndina.

Trailer:

Prozac Nation [2001]

Did you know that there are over 300 million prescriptions filled for Prozac each year in the United States alone?


Prozac Nation er gerð eftir sjálfsævisögu Elizabeth Wurtzel. Prozac Nation var metsölubók en þrátt fyrir það höfðu lesendur mjög skiptar skoðanir á henni. Prosaz Nation fjallar um nokkur ár í lífi Wurtzel eftir að hún hefur nám við Harvard. Foreldrar Wurtzel skildu þegar hún var ung og þegar hún kemst á kynþroska aldur verður hún mjög þunglynd. Hún berst við þunglyndi næstu árin og nær það hámarki þegar hún er í Harvard.
Christina Ricci leikur Elizabeth og gerir það alveg ótrúlega vel hlutverkið tekur mikið á þar sem Lizzie er grátandi, miður sín, full eða dópuð alla myndina. Michelle Williams leikur Ruby herbergisfélaga Lizzie og þrátt fyrir lítið hlutverk er hún áberandi góð. Jason Biggs og Jonathan Rhys-Meyers leika kærasta Lizzie (2 mismunandi ekki þann sama) og Jessica Lange leikur mömmu hennar. Hlutverk ofverndandi, yfirgnæfandi og hreint og beint óþolandi móðurinnar er án efa mjög erfitt hlutverk að leika. Jessica Lange gerir það ansi vel hún yfirgnæfir aldrei Ricci en tekur sínar tilfinningasveiflur ótrúlega vel.

“Gradually, then suddenly.” That´s how depression hits. You wake up one morning, afraid that you´re going to live.


Verð hinsvegar að segja að leikstjórn myndarinnar fór mjög í taugarnar á mér. Ég veit ekki hvort leikstjórinn (Eric Skjoldbjærg) hefur gaman að því að brjóta “reglurnar” eða hvort hann gerir það til að láta stemmningu myndarinn passa við geðsveiflur Lizzie. En myndavélin hoppar endalaust yfir línuna svo maður veit aldrei hvernig senan snýr. Klippingin hökti og gat verið allt of hröð eða alltof hæg. Lýsingin í myndinn var líka frekar vafasöm og má þá til dæmis nefna atriði þar sem mamma Lizzie dregur frá í herberginu hennar og þegar hún kemur við gardínuna blikkar allt ljósið, verður dökkt og skrítið á litinn og svo fyllist herbergið aftur af nákvæmlega sama ljósi og var áður en hún dró frá. Einngi virðast þeir hafa dubbað stóran part af myndinni og það er alltof augljóst þegar líður á myndina.


Handritið af myndinni var að mínu mati hennar versti galli. Þessi mynd sannfærði mig um það að ég á ekki að horfa á myndir þar sem ég hef lesið og líkað við bókina sem hún var gerð eftir. Myndin fer alls ekki öruggu leiðina en karakter Lizzie verður samt einhvern vegin Lizzie light. Þunglyndi hennar kemur illa fram í handritinu, hún virðist frekar þjást af geðhvarfasýki eða bara að vorkenna sér aðeins of mikið. Í bókinni eru lýsingar á þunglyndi Lizzie mun dýpri og þar sem myndin notast við Lizzie sem sögumann hefðu þessar lýsingar auðveldlega getað komið fram. Í þessu felst galli handritsins, Lizzie verður alveg heiftarlega óviðkunnanleg. Hún vælir og vælir og kvartar og kveinar án þess að áhorfandi fái nokkurn tímann almennilega að vita hver hugsun hennar er á bakvið þetta allt þrátt fyrir að hún sé malandi hugsanir sínar yfir alla myndin. Augljóst verður eftir stutt áhorf að handritshöfundur myndarinnar (Galt Niederhoffer) hefur aldrei þurft að kljást við þunglyndi og getur því ekki skilið það eða komið því á framfæri.

Það kemur mér ekki á óvart að Elizabeth Wurtzel höfundi bókarinnar hafi mislíkað myndin mjög og ég held að aðdáendur bókarinnar hafi verið sviknir með gerð þessarar myndar. Ég tók allavega þá ákvörðun að fara mjög varlega í að horfa á myndir sem gerðar eru eftir bókum sem ég hef lesið aftur.
Ég vil samt ekki segja að þetta sé hræðileg mynd, það er pottþétt hægt að finna sér verri leiðir til að eyða 90 mínútum. En þú verður að hafa töluverðan áhuga á þunglyndi og skilja það nokkuð vel til þess að njóta hennar, aðalega til þess að þú komist í gegnum myndina án þess að vilja drepa Lizzie. En ef þið hafið áhuga á sögunni myndi ég eindregið mæla með bókinni frekar en myndinni.

Sometimes it feels like we are living in a Prozac Nation. The United States of depression.

Trailerinn: