Thursday, October 29, 2009

Easy (2003)


Rakst á þessa mynd um daginn og held þetta sé í fyrsta skipti sem ég horfi á mynd sem ég veit ekkert um og henni tekst að valda mér vonbrigðum.
Easy fjallar um stelpu sem heitir Jamie. Hún lýsir sjálfri sem "jerk-magnet", semsagt stelpu sem er alltaf með vitlausum strákum. Hún lendir í miðjunni á klassískum ástarþríhyrning, lifir skírlífi í 3 mánuði og velur sér svo réttan gaur. The End.
Myndin á sína góðu parta en verður svo kjánaleg oft þar sem hún er rosalega klisjuleg en samt að reyna að vera artí.
Nokkrir góðir brandarar og að nokkru leiti raunverulegur söguþráður (sem þú getur held ég bara notið ef þú ert stelpa) en engin mun finna neitt í þessari mynd sem hann hefur ekki séð áður.
Það besta við myndina er hins vegar aðalleikkonan, Marguerite Moreau. Hún er mjög trúverðug í hlutverki sínu og sýnir allar hliðar á persónunni. Sem má líklega þakka leikstjóranum fyrir. Leikstjóri myndarinnar er Jane Weinstock. Að mínu mati gerir hún myndina vel, persónurnar eru allar gerðar mjög viðkunnalegar (nema kannski systirin sem er bara of fyrirsjáanlegur karakter) og flæði myndarinnar er að mestu leiti fínt, einhver atriði sem eru aðeins of löng en það hrjáir myndinni ekki það mikið. Eina sem ég hefði að segja við leikstjórann væri að spurja hana afhverju hún vildi gera svona klisju mynd þegar hún hafði svona lítinn pening til að gera hana. Mér finnst skrítið að reyna að gera low-budget klisju rómantíska gamanmynd. Það koma svo margar svona myndir út á hverju ári að það er nokkuð vonlaust að gera frumlega rómantíska gamanmynd og þær bara virka ekki að mínu mati í svona artí formi.

Monday, October 26, 2009

1408


Eftir að horfa á og fræðast um Billy Wilder síðustu daga var það nett árás á skilningarvitin að setjast niður og horfa á 1408. Myndin er byggð á sögu eftir Stephen King og fjallar um rithöfundinn Mike Enslin sem er að rannsaka bókina sína 10 haunted hotels. hann fær bréf sem vekur forvitni hans og leiðir hann að herbergi 1408 á hóteli í New York. Hótelstjórinn reynir allt sem hann getur til að koma í veg fyrir að Mike gisti í herberginu en ekkert gengur. Stuttu eftir að Mike kemur inn á herbergið grunar hann að eitthvað meira liggji á bakvið sögurnar af herberginu en sölubrella af hálfu hótelsins.

Ég hafði mjög gaman af því hvernig söguþráðurinn þróaðist, allt byrjar á litlum brellum sem þú dregur jafnmikið í efa og aðalpersónan, en hægt og rólega verður allt ýktara og dregur þig með. Að mínu mati fer leikstjórinn oft aðeins yfir strikið og drepur spennu myndarinnar, en í lok myndarinnar eftir tvö góð "twist" í sögunni var ég bara nokkuð sátt með myndina.

En eins og ég nefndi áðan er ég búin að vera að horfa á Billy Wilder myndir og það gefur mjög ýktan samanburð við þessa mynd. Wilder hefur frekar mikla trú á einföldum skotum og því að þú eigir ekki að taka of mikið eftir leikstjóranum í myndinni. 1408 er alger andstaða. Allur söguþráður og uppsetning myndarinnar gengur út á það að spila með hausinn á þér. Þú ert aldrei alveg viss hvað gerist næst, hverju þú átt að trúa eða hvert þú átt að horfa og stór hluti af því er það að þú veist aldrei hvert næsta skot myndavélarinnar stefnir. eitt skot er extreme close-up og næsta skot er 20 metrum fyrir ofan leikarana. Þriðja skotið er kannski mjög típísk close-up skot af þeim leikara sem er að tala og fjórða skotið er hinu megin í herberginu og þú horfir á leikarana í gegnum mannþröng.

Ætla ekki að fara að segja að þessi mynd sé einhver snilld eða að það sé skylda fyrir neinn að sjá hana. það er ekki næg baksaga og alls konar litlir hlutir sem pirruðu úr mér líftóruna (eins og draugar sem virðast vera í gömlu sjónvarpi og hlutir sem hverfa þegar þeim er hent útum gluggann) en sem spennumynd til að horfa á þegar þig langar bara að setjast niður og horfa á mynd sem heldur athygli þinni og bregður þér nokkrum sinnum þá er 1408 ágætis skemmtun.