Wednesday, April 7, 2010

Alice in Wonderland [2010]


You've got a very important date.

Ég fór á Alice in Wonderland um daginn og þrátt fyrir það að ég elski Tim Burton, hafi mjög gaman af tríóinu (Burton, Depp og Bonham-Carter) og ég vissi að Stephen Fry væri e-ð í myndinni fór ég í bíó án allra væntinga. Ég hef lesið hluta af fyrri bókinni og hafi mjög gaman af henni en hef aldrei haft gaman af Alice in Wonderland myndunum. Ég held að þetta væntingarleysi hafi verið ástæðan fyrir því að ég hafði gaman að myndinni. Fór á netið að lesa aðeins um hana og IMDB er yfirfullt af fólki sem virðist virkilega hata þessa mynd.

Get alveg verið sammála þeim að vissu leiti myndin er ekki fullkomin. Ætla bara að renna hratt yfir það sem mér fannst að og reyna svo að hafa þetta aðeins jákvæðara. Mér fannst vanta hina dimmu veröld Burton´s, það vantaði meiri dýpt í persónurnar og meiri Burton tilfinningu, illkvitni og frumleika í persónum og samtölum. Söguþráðurinn fyrir mér er líklega stærsti gallinn en líka sá sem ég á auðveldast með að fyrirgefa. Bækurnar eru ferðalag um óraunverulegan heim, trip frá einum atburði til þess næsta án tilgangs eða tengingu við veruleikann. Það sem Tim Burton og handritshöfundurinn Linda Woolverton hafa ákveðið að gera er að reyna að setja saman söguþráð úr bókunum tveimur og það tekst einfaldlega ekki nógu vel. Söguþráðurinn er fyrirsjáanlegur og frekar þurr. En eins og ég sagði finnst mér þetta fyrirgefanlegt, það gengur ekki jafn vel upp að sleppa söguþræði í myndum og bókum. Það að skrifa söguþráð í þessar myndir er hægara sagt en gert, það verður að svíkja bækurnar aðeins og þá færðu strax stóran aðdáendahóp á móti þér. Ekki að þeir þurfi að hafa áhyggjur af því þar sem það hefur sannast að mynd sem Burton leikstýrir og Depp og Bonham-Carter leika í mun draga að sér stóran áhorfendahóp sama hvað. Held að myndin hefði farið betur ef Burton hefði gert meira í handritinu og Woolverton minna. Ég vil allavega trúa því að hann hefði getað nýtt svarta húmor bókanna betur en handrit myndarinnar gerir.
Það sem mun þó að eilífu pirra mig við myndina eru dansatriðin. Dansatriði Johnny Depp en ansi lélegt, skrítið og misheppnað en þegar Wasikowski endurtekur það er það hreint og beint óafsakanlega kjánalegt. Þau eru líka það seint í myndinni að þau sitja eftir í manni þegar maður labbar út. Það hefði gert mikið fyrir myndina að sleppa þessum tveimur atriðum.

Við fengu okkur frí frá íslensku lærdómi til að sjá myndina og eftir margra daga lærdóm vorum við komnar í fullkomlega súrt hugarástand til að horfa á Burton mynd. Alice in Wonderland gaf mér akkurat það sem ég vildi: um það bil tveggja tíma frí frá raunveruleikanum. Myndin er ekki að fara að vinna nein óskarsverðlaun en ég var heldur ekki að búast við þannig mynd. Ég hafði ótrúlega gaman af þessum típíska breska leikarahóp. Christopher Lee, Stephen Fry, Alan Rickman og Imelda Staunton leikarar sem virðast oft vera saman í myndum og standa alltaf fyrir sínu. Ekkert þeirra leikur stórt hlutverk en þau gera sitt svo ótrúlega vel að það eru þau sem maður man eftir þegar maður labbar út úr bíóinu. Depp sem klikkaði hattarinn í skrautlegum búning með, brjáluð augu og klofin persónuleika stendur alveg fyrir sínu. Þarf samt að sjá Depp í nýrri mynd þar sem hann leikur einhvern alveg venjulegan farin að sjá of mikinn Jack Sparrow og Willy Wonka í persónum hans. Helen Bonham Carter sem samblanda af rauðu drottningunni og hjartadrottningunni er frábær. Anne Hathaway nær furðulegu hvítu drottningunni vel og Matt Lucas er frábær sem tvíburarnir. Mia Wasikowska er ótrúlega falleg og get ekki sett út á leikinn hennar, fannst hins vegar Alice ansi leiðinleg. Veit ekki hvort það sé hún, leikstjórnin eða handritið en mér fannst hún alveg heiftarlega leiðinleg. Mér fannst leikararnir sem voru eingöngu að tala inn á myndina stela senunni. Stephen Fry (ok ég er ekki hlutlaus, hef séð allt sem maðurinn hefur gert og ekki mislíkað neitt af því) er frábær sem Chesire Cat og Alan Rickman er snilld í sínum 5 setningum sem Absolem og Christopher Lee er fullkomin sem Jabberwocky.

Ég ætla að sleppa umfjöllun um 3D þar sem ég bara get ekki myndað mér heilsteypta skoðun um þessa ákveðnu tækni.
Tónlistin er eftir Danny Elfman eins og svo oft áður í Burton myndum og passar að mínu mati ótrúlega vel við Undraland.

Myndin mjög flott, mikið af leikurum og skemmtilegum persónum. Ég hefði samt helst viljað sjá minni söguþráð og meira af klikkuðum, ótrúlegum og óraunverulegum persónum. Ég naut myndarinnar en hún skilur ekki mikið eftir sig.

1 comment:

  1. Æ, ég þarf að sjá þessa áður en hún fer úr bíó.

    Fín færsla. 8 stig.

    ReplyDelete