Monday, April 12, 2010

Fur: An Imaginary Portrait of Diane Arbus [2006]

Fur er eins og titillinn segir byggð á ævi Diane Arbus en myndin gerist á tímabili í ævi Arbus sem við vitum í rauninni ekkert um. Handritshöfundurinn og leikstjórinn ímynda sér svo afganginn. Þeir eru þó ekki að reyna að útskýra hvað gerðist raunverulega í lífi hennar heldur er öll myndin táknræn og þeir reyna eingöngu að útskýra hvernig hugsanir hennar breyttust. Til þess að skilja myndin þarf að vita hver Diane Arbus er. Arbus er líklega einn þekktasti ljósmyndari Bandaríkjanna. Hún ólst upp í New York og þó hún hafi alltaf verið öðruvísi varð það ekki augljóst fyrr en 1958 þegar hún fór að taka sínar eigin ljósmyndir. Helstu viðfangsefni hennar voru fólk sem var öðruvísi: tvíburar, þríburar, klæðskiptingar, dvergar, albinóar og geðsjúklingar. Viðfangsefni hennar virðast ekki jafn skrítin 2010 og þú voru 1958 en Diane nær þeim yfirleitt á stundum sem gerir þau ógeðfelldari eða undarlegri en þau í raun voru.


Það sem vitað er um líf Diane Arbus á þeim tíma sem hún byrjar að taka þessar myndir er ekki mikið. Hún var 35 ára og gift Allan Arbus (smá side note: Allan Arbus varð leikari eftir að hann og Diane skildu. Fyrsta myndin sem hann lék í var leikstýrð af Robert Downey Sr. en Robert Downey Jr. leikur í Fur.) Diane og Allan unnu saman í ljósmyndastúdíoi Allans en aðalverkefni þeirra var að taka auglýsingar fyrir feldasölu pabba Diane. Diane var frá sjónarhorni þeirra utanaðkomandi hin típíska 50´s eiginkona sem sá um börnin, eldamennskuna, þrifin og var aðstoðarmanneskja mannsins síns í stúdíóinu. Ekki er vitað hvað gerðist inná heimilinu eða í hausnum á Diane en 1958 fer hún að breytast, taka þessar “skrítnu” myndir og fór stuttu seinna frá eiginmanni sínum.

Þá erum við komin að söguþræði myndarinnar. Það flytur maður inn í íbúðarhúsið sem Arbus fjölskyldan býr í. Hann vekur strax áhuga Diane (Nicole Kidman) og hún kemst fljótt að því að hann þjáist af sjúkdómi sem nefnist hypertrichosis og hafði eytt stórum hluta af lífi sínu sem “circus freak”. Hann kynnir Diane fyrir heiminum sem hún hafði alltaf þráð að kynnast, aragrúa af fólki sem er öðruvísi en fjöldinn og sjá ekkert að því. Maðurinn heitir Lionel Sweeney (Robert Downey Jr.) hann er ekki byggður á neinu úr lífi Diane en táknar breytinguna sem hún gekk í gegnum á þessum tíma.

Þegar ég heyrði fyrst að það ætti að gera mynd um Diane Arbus varð ég ótrúlega spennt, næst heyrði ég að Robert Downey jr. ætti að leika í henni og þá gat ég ekki beðið. Næstu fréttir voru þær að Nicole Kidman ætti að leika Diane og þá komst ég að því að Stephen Shainberg myndi leikstýra henni. Það er einhver erfðagalli í fjölskyldunni minni en ekkert okkar getur horft á Nicole Kidman, bara einfaldlega enginn í fjölskyldunni þolir hana. Stephen Shainberg vakti líka smá áhyggjur hjá mér. Mér fannst Secretary ágæt en það var eitthvað við hana sem pirraði mig hef aldrei almennilega náð því hvað það var. Kidman og Shainberg voru hinsvegar ekki nóg til að stoppa mig í að horfa á myndina.


Ég keypti myndina fyrir rúmlega ári síðan og byrjaði að horfa á hana með vinkonu minni. Eftir of mörg ár í sundi og samkvæmisdansi er hún með alvarlega hár phobiu. Hún komst því ekki í gegnum meira en 15-20 mín af myndinni áður en hún gafst upp. Eftir þetta gleymdi ég myndinni, en núna þegar ég átti að vera að læra undir jarðfræðipróf varð mér litið í DVD hilluna mína og ákvað að ég yrði nú að horfa á þessa mynd. Söguþráðurinn snýst, eins og ég sagði fyrr, nær eingöngu um tákn. Hann er því örlítið þunnur. En það breytir engu máli þar sem tvær manneskjur gera myndina að svo miklum draumaheimi að maður getur alveg týnst i honum. Þetta eru Amy Danger sem hannaði allt settið sem er svo ótrúlega dulúðugt og flott að ég gat ekki slitið augun af myndinni og Carter Burwell sem sá um tónlistina. Tónlistin er stundum frekar öðruvísi en samt svo ótrúlega fullkomin fyrir myndin. Tónlistin er ekki áberandi eða dramtísk heldur fellur hún inn í umhverfi og hjálpar til við að búa til þenna ævintýraheim sem líf Lionel er. Þegar ég segi ævintýra heim þá meina ég ævintýraheim, myndin er full af vísunum í Alice in Wonderland. Þegar Arbus horfir á lykil á glerborði, labbar upp hringstiga í bláum kjól, fer inn í íbúð sem er ólík öllu sem hún hafði séð og sér þar hvíta kanínu og fær skilaboð um að drekka bolla af tei finnst áhorfanda hann vera farinn að horfa á enn eina útgáfu af Undralandi.

Lionel er vel skrifaður karakter. Hann er sjarmerandi og tælandi, hann heillar Diane með vinum sínum, frjálslegum lífstíl og hinum ótrúlega áhuga sem hann hefur á henni og að leyfa henni að kynnast öllu sem hún vill kynnast. Robert Downey jr. nær honum ótrúlega vel, hann ber sig eins og maður mundi búast við af manni sem hefur verið gert grín að alla hans ævi en vill að heimurinn sjái að hann skammast sín ekki. Þar sem hann er þakin hári nærri því alla myndina þarf hann að leika margt með eingöngu augunum og honum tekst það vel. Hann nær að beita röddinni á vegu sem passar ótrúlega vel fyrir Lionel og allar litlar hreyfingar gera karakterinn að persónu sem áhorfandi getur tengst.


Allan eiginmaður Diane er nákvæmlega það sem hann þarf að vera, honum þykir greinilega vænt um Diane og vill gera það sem hann getur fyrir hana en hann á erfitt með að horfa á konuna sína breytast svona mikið, svona hratt. Hann stendur fljótlega frammi fyrir þeim möguleika
að hann sé að fara að vera einstæður faðir í kringum 1960 sem var rosalega sjaldgæft. Ty Burrell leikur Allan og það verður að segjast að það er flókið verk. Áhorfanda langar ekki að líka við Allan því hann stendur fyrir allt það sem heldur aftur af Diane, það sem bindur hana við hið hefðbundna líf sem henni líður svo illa í. En Burrell nær Allan svo viðkunnanlegum og vorkunnarlegum að samúð áhorfanda verður mjög sterk með honum.

Diane er manneskja sem maður á erfitt með að skilja, hún er að reyna að brjótast undan því lífi sem foreldrar hennar, eiginmaður og samfélagið ætlast til að hún lifi. Hún hefur greinilega aldrei passað vel inn. Ef við tölum um hina raunverulegu Diane þá hafði hún á barnsaldri alltaf áhuga á skrítnu krökkunum, hún var aldrei hrædd og fékk snemma löngun til að fara í líkhús, geðspítala og nektarnýlendur. Þetta er ekki endilega það sem áhorfandi skilur vel og áhorfandi getur einnig á erfitt með að skilja hvernig hún getur á þremur mánuðum fjarlægst eiginmann sinn og tvær dætur svona auðveldlega. Kidman leikur hana ótrúlega vel má þá sérstaklega nefna atriði snemma í myndinni þegar foreldrar hennar halda loðfeldssýningu heima hjá Arbus hjónunum. Þá er klippt á milli frekar ógeðfelldra skota sem sýna áhorfendur sýningarinnar og græðgi þeirra í veraldlega hluti og skota af Diane að fylgjast með þeim. Þetta atriði er algerlega byggt á augum Diane og þetta atriði er að mínu mati ótrúlega vel leikið hjá Kidman. Það eina sem mér fannst að var það að hún er of falleg, ég er ekki að segja að leikkona eigi að lýta eins út og persónan sem hún leikur en Arbus stendur bara fyrir öðruvísi fegurð eða jafnvel lýti manneskjunnar og því er undarlegt að hún sé svona falleg.

Eftir að horfa á myndina komst ég að því hvað mér finnst að Secretary því ég sé sama gallann hér. Shainberg vill hafa persónur sínar of “nice”. Þegar ég hugsa um það þá fannst mér óþægilegt í Secretary hvað það var mikið verið að reyna að gera persónu Maggie Gyllenhal (hef ekki betra orð) nice. Í Fur er það sama gert með Diane og mér finnst það ónauðsynlegt og stundum bara ganga svolítið erfiðlega hjá þeim.

Ég sé ekki eftir því að hafa horft á myndina í stað þess að læra. Hún heillaði mig “upp úr skónum” og ég hafði ótrúlega gaman af því að detta inn í þenna heim sem þau bjuggu til. Mæli með því að allir sem vita eitthvað um Diane og heillast af myndum hennar sjái myndina. En mæli ekki með því að horfa á hana án þess að kynna sér Diane eitthvað á undan.


Trailerinn (Alveg hræðilega lélegur að mínu mati):

1 comment: